Lífið er … mitt val

Lífið er eintóm dásemd og allar rósir eru án þyrna og ég geri ekkert annað en það sem veitir mér hamingju, þetta eru falleg orð en eru þau sönn?

Það er auðveldur leikur á Facebook að senda svona falleg orð út í tómið, að lífið sé bara dásamlegt í alla staði og þú átt að hugsa þannig, ef þú gerir það ekki þá er eitthvað að þér, það er þá kannski bara ekki allt í lagi heima hjá þér, þú ert þá bara ekki með í þessum dásamlega leik, vertu þá bara úti. Þú ert hvort sem er alltaf svo neikvæð/ur.

Lífið er erfitt, rósir eru þyrnum stráðar og ég þarf að gera svo ótal margt fleira en það sem veitir mér hamingju.

Fyrir ári síðan, um miðjan desember, þá byrjaði ég í lyfjameðferðinni sem nú hefur gefið mér von um lengra líf. Um daginn var lyfjabrunnurinn tekinn og í morgun var ég útskrifuð frá Karitas hjúkrun og næst læt ég taka öryggiskerfið. Tvisvar sinnum hef ég sigrað krabbamein og í dag vel ég að njóta dagsins í dag með þakklæti. Núna vakna ég á morgnana og spái í hvað ég ætla að gera í dag, fyrir ári síðan vaknaði ég sjaldan og vakti stutt og grét mikið. Ég hef lært það núna að það sem ég hélt að væri reiði er í raun sorg og það var gott að fá þann skilning.

Lífið er alltaf að kenna mér og ég er þakklát fyrir það. Ég reikna ekkert frekar með að steinn standi yfir steini á morgun, sá sem faðmar mig í dag getur verið farinn á morgunn og í dag er ég með 10 fingur og 10 tær en á morgun er ekki víst að ég hafi hendur eða fætur. Lífið er meira en erfitt og flókið, það er óréttlátt líka en ég hef val, það er mín yndislegasta leið í gegnum lífið að gleyma aldrei að ég hef val og ég vel að vona, já það er gott að hafa öðlast aftur vonina. Þegar ég hef stillt þessu svona upp í huga mér þá sé ég betur ljósið og friðinn fyrir ofan sorgina og þá finn ég líka svo vel að lífið er eintóm dásemd.

AÐ MÆTA RAUNUM

Við látum hverfa böl sem fæddist forðum
og framtíð okkar verður björt og löng,
við skynjum ljúfan ilm af fögrum orðum
og ást sem þiggur lit frá fuglasöng.

Þótt landið verði hulið fönn og frosti
og fari vindar hjá um langa hríð
við verðum sátt við okka afarkosti
og örkum stolt til móts betri tíð.

Ef hugur frjáls og laus við bölsins byrði
með birtu helgar lífsins gönguför
þá sést hve það er mönnum mikils virði
að mæta hverri raun með bros á vör.

– Kristján Hreinsson

P.s. Þetta ljóð er úr nýútkominni ljóðabók Kristjáns Hreinssonar,
Ljóðin við Veginn,
Ég er búin að panta mér þessa bók og hlakka mikið til að fá
hana, ljóðin hans Kristjáns hafa töframátt. ♥