Einn dagur … í einu

Ég vakna að morgni og þakka fyrir það, ég kveiki á náttborðslampanum og horfi upp á vegginn fyrir ofan rúmið mitt, þar hef ég ýmislegt sem mér finnst vænt um. Dagurinn læðist inn í lífið mitt eða kannski læðist ég inn í daginn. Ég kemst að því að bíllinn minn er bilaður og ég fæ sorglegar fréttir og svo fæ ég erfiðar fréttir, ég horfi þakklát á uppvaskið safnast saman í vaskinum. Ég tek strætó niður í bæ til að hitta lækni og finn að ég get gengið í gegnum stóra snjóskafla eins og ég gat fyrir ca 6 árum síðan, ég fer létt með það og ég er þakklát fyrir kraftinn sem ég finn sífellt aukast. Í fyrramálið fer ég með strætó uppá spítala í myndatökur og blóðprufur og á mánudaginn hitti ég Höllu Skúladóttur, krabbameinslækninn minn og fæ niðurstöður. Ég á gott líf, engin vandamál, bara lausnir. Ég hlakka svo til að finna mér vinnu. Það fer alveg að koma að því, ég finn það á mér, hlutastarf, það verður yndislegt að eignast vinnufélaga, að eiga draum og bíða eftir að hann rætist gleður mig á hverjum degi. Já, ég er svo sannarlega þakklát fyrir að lifa daginn í dag, hann var erfiður og hann var góður og ég fékk að njóta hans.

Hérna fann góða lesningu :

Regina Brett er 56 ára gömul og hefur um langt skeið verið dálkahöfundur hjá dagblaði í Ohio. Fyrir fjórtán árum greindist hún með brjóstakrabbamein og í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar lærði hún að meta lífið upp á nýtt og skrifaði 50 lífsreglur.

Þessar 50 lífsreglur hafa hlotið gríðargóð viðbrögð út um allan heim enda er mikil og djúp viska í þessum einföldu reglum. Lífsreglur sem maður ætti að tileinka sér – lífinu ætti aldrei að taka sem sjálfsögðum hlut!

Eins og hún segir sjálf þá „er þetta skrifað til að fagna því að eldast sem og að fagna því sem lífið sjálft hefur kennt manni.“

1. Lífið er ekki sanngjarnt en það er samt ljúft.

2. Sé maður í vafa er best að hafa næsta skref stutt.

3. Lífið er allt of stutt til að hata nokkurn mann.

4. Ekki taka sjálfan þig svona alvarlega. Enginn annar gerir það.

5. Borgaðu niður kredidkortaskuldirnar þínar í hverjum mánuði.

6. Þú þarft ekki alltaf að hafa rétt fyrir þér. Samþykktu að vera ósammála.

7. Gráttu með einhverjum. Það er meiri huggun í því en að gráta einn.

-o- Það er huggun í því að gráta með öðrum

8. Það er allt í lagi að reiðast Guði. Hann þolir það alveg.

9. Leggðu aur til hliðar fyrir ellina – byrjaðu með fyrsta launaseðlinum.

10. Súkkulaði er freisting sem tilgangslaust er að streitast á móti.

-o- Súkkulaði er freisting…sem ekki þarf að standast!

11. Sættu þig við fortíðina svo fortíðin eyðileggi ekki núið.

12. Það er í lagi að börnin manns sjái mann gráta.

13. Forðastu að bera líf þitt saman við líf annarra. Þú hefur ekki hugmynd um hvað gengur á hjá öðrum.

14. Ef samband þarf að vera leynilegt þá ættirðu sennilega ekki að vera í því.

-o- Leyndarmál ættu ekki að vera í lífi manns

15. Lífið getur breyst á augabragði en hafðu ekki áhyggjur. Guð deplar aldrei auga.

16. Lífið er of stutt fyrir væl og vesældóm. Lifðu lífinu lifandi annars verður þú önnum kafinn við að undirbúa dauðann.

17. Þú getur allt svo framarlega sem þú dvelur í núinu.

18. Rithöfundur skrifar. Ef þú vilt verða rithöfundur skalt þú skrifa.

19. Það er aldrei of seint að eiga dásamlega barnæsku. Það er í þínum höndum hvernig og hvenær þú upplifir hana.

20. Þegar kemur að því sem þú virkilega elskar og þráir skaltu aldrei sætta þig við svarið: „Nei“

21. Leyfðu kertunum að loga, notaðu sparisængurverið og klæddu þig í fínustu nærfötin. Ekki bíða þar til það er tilefni. Dagurinn í dag er sérstakt tilefni.

-o- SpariDagurinn í dag er sérstakur

22. Undirbúðu þig svakalega vel, leyfðu þér svo að fljóta með straumnum.

23. Vertu furðulegur núna! Ekki bíða fram í ellina með að klæðast fjólubláu.

24. Mikilvægasta líffærið í kynlífinu er heilinn.

-o- Heilinn er potturinn og pannan í upplifuninni

25. Hamingjan er á þína ábyrgð. Ekki einhvers annars.

26. Skoðaðu hvert „stórslys“ hjá sjálfum þér með þessi orð í huga: „Hvaða máli mun þetta skipta eftir fimm ár?“

27. Veldu lífið. Alltaf.

28. Fyrirgefðu öllum allt.

29. Það kemur þér ekki við hvað öðrum finnst um þig.

30. Tíminn læknar öll sár. Gefðu tímanum tíma.

-o- Gefðu honum tíma!

31. Hversu góð eða slæm staðan er, þá mun hún breytast.

32. Vinnan mun ekki sinna þér ef þú veikist. Vinir þínir munu gera það. Vertu í sambandi.

33. Trúðu á kraftaverk.

34. Guð elskar þig af því að hann er guð, ekki af því að þú gerðir eitthvað eða lést eitthvað ógert.

35. Það sem drepur þig ekki styrkir þig.

36. Að eldast sigrar andstæðu sína – að deyja ungur.

37. Æska barnanna þinna kemur ekki aftur. Gerðu hana einstaka.

38. Lestu Davíðssálma. Þeir taka fyrir hverja eina og einustu mannlega tilfinningu.

39. Farðu út á hverjum degi. Kraftaverkin bíða hér og þar.

40. Ef við myndum kasta öllum vandamálum okkar í hrúgu og bera saman við vandamálahrúgu annarra myndum við sennilega velja okkar eigin hrúgu aftur.

-o- Vandamálahrúgan þín er mjög líklega ekki eins slæm og annarra

41. Ekki vera áhorfandi í eigin lífi. Vertu á staðnum og gerðu sem mest úr lífinu.

42. Losaðu þig við allt sem ekki er gagnlegt, fallegt eða ánægjulegt.

43. Þegar allt kemur til alls er það, að hafa elskað, það eina sem máli skiptir.

44. Öfund er hrein tímasóun. Þú hefur allt sem þú þarft.

-o- Öfund er tímasóun

45. Besti tími lífsins er ekki runninn upp.

46. Sama hvernig þér líður, farðu á fætur, klæddu þig og vertu til.

47. Andaðu djúpt. Það róar hugann.

48. Ef þú spyrð ekki, færðu ekki svör.

49. Gefðu af þér.

50. Það eru ekki endilega slaufur og krúsídúllur á lífinu, en það er samt gjöf…