ÉG SJÁLF er að koma til baka :-)

Myndin til hægri er tekin 17.sept 2010, þá var ég að bíða eftir að fá ristilspeglun, ég beið í 6 vikur, ég var mjög veik en það virtist ekkert flýta fyrir því ferli að ég fengi speglunina eitthvað fyrr. Ég hafði óskað eftir að ég fengi að leggjast inn á sjúkrahús á meðan ég beið, ég gat ekki orðið hugsað um sjálfa mig en nei, ég átti að bíða heima. Það er erfitt að liggja veik ein heima og geta t.d. ekki baðað sig eða náð sér í mat að borða. Er til eitthvað kerfi sem grípur fólk í þessari stöðu? Nei.

Myndin til vinstri er tekin 11 mánuðum síðar, 12.ágúst 2011, þá er búið að skera ristilkrabbameinið í burtu, ég er búin að fara í gegnum lyfjameðferðina og alveg frá því að ég fékk loksins rétta greiningu þá fékk ég allt annað viðmót innan heilbrigðiskerfisins, meiri skiling og betri þjónustu. Einhverntíma á þessum 11 mánuðum hitti ég vinkonu mína sem sagði við mig; “heyrðu ég sé að ÞÚ SJÁLF ert að koma til baka” það var svo gott að heyra þessa setningu, ég geymi hana í hjarta mér.