Ég teiknaði þessa mynd í apríl 2008, ég man ekki eftir að hafa teiknað hana en ég fékk hana afhenta í síðustu viku. Hún rifjaðist smá saman upp fyrir mér að hluta til. Það liðu næstum tvö ár frá því að ég teiknaði myndina þar til að ég fékk greininguna um krabbameinið.
Á myndinni er ég gula andlitið með krossana á augunum og bláu andlitin eru læknar og hjúkrunarfólk, stærsta bláa andlitið sem er til vinstri er geðlæknirinn á geðdeild, ég var svo hissa á honum að bjóða mér róandi lyf við magaverkjunum, ég svaf 18 – 20 tíma á sólarhring og var alltaf að drepast í maganum, já trúlegt að ég þyrfti róandi lyf. Hann spurði mig líka hvað ég ætlaði að gera við lífið mitt, ég er ennþá gapandi hissa á því hvað það kom málinu við akkúrat þarna, ég var fárveik og átti að standa skil á því við hann hvað ég ætlaði að gera við lífið mitt, ég hafði unnið úti allan minn starfsaldur, eignast þrjá spræka drengi og komið þeim til manns og þarna var ég fárveik og var að tala við lækni sem vildi vita hvað ég ætlaði að gera við lífið mitt. Núna finnst mér þetta vera eins og atriði úr lélegri bíómynd.
Spurningamerkin sýna hvað ég var ráðvillt, hvernig gat allt þetta fólk sagt að ég væri svona dugleg þegar ég stóð varla í fæturnar.
Þessi teikning sannar enn betur fyrir mér að ég talaði mjög skýrt um veikindi mín, vandamálið var að læknar og hjúkrunarfólk var svo illa haldið af fordómum að það hlustaði ekki á mig! Andlitið sem er til hægri á myndinni, með stóru eyrun, ég var hjá þessum lækni í mörg ár og ég hélt mikið uppá hann, ég trúði því að hann væri mjög fær á sínu sviði og ég hélt að hann hlustaði svo vel á mig. Núna veit ég betur, hann gagnaðist mér ekki og það virtist ekki koma honum við þótt ég veiktist meira og meira og væri orðin langlegusjúklingur ein heima hjá mér, ég var dauðveik og þurfti hjálp, ég grét og þrætti við hann þegar hann sagðist ætla að leggja mig inná geðdeild, ég sagði að veikindi mín væri ekki tengt geðheilsu en hann hristi hausinn og sagði að ég væri með MJÖG djúpt þunglyndi. Seinna hringdi ég í hann og sagði honum að þetta væri krabbamein, það var í síðasta sinn sem ég talaði við hann, þá var ég að leggjast inn í uppskurðinn og átti svo lyfjameðferðina eftir. Þessi læknir sýndi mér mikla óvirðingu!
Það mætti halda að ég hafi verið með einhvern sjaldgæfan sjúkdóm sem erfitt væri að finna en nei, ég var með þriðja algengasta krabbameinið sem auðvelt er að finna með viðeigandi rannsókn og mjög auðvelt að lækna á frumstigum. Það dugar ekki að giska bara á að sjúklingur sé með þunglyndi og skrifa uppá geðlyf. Það þarf að sýna sjúklingum þá virðingu að hlusta á þá! En afhverju hlustuðu þeir ekki á mig, ef það voru ekki fordómar hvað var það þá sem skerti heyrn þeirra?
Nú eru fjórir mánuðir síðan ég sendi bréf með spurningu um hvort hægt hefði verið að greina krabbameinið fyrr. Ég veit reyndar að það sást á mynd ári áður en ég fékk greininguna. Það er ekki ólíklegt að það vefjist fyrir fólki að viðurkenna mistökin, ég þekki það alveg í sjálfri mér og ég held að við séum mörg þannig, frekar treg til að viðurkenna þetta mannlega í okkur, að geta gert mistök.
Mér líður vel í dag, allt gengur ljómandi vel en ég hlakka til þegar ég get endanlega lagt þetta mál frá mér. Ég hef fyrirgefið því fólki sem kom að þessu máli mínu en til þess að einhvern lærdóm verði hægt að draga af mistökunum þá þarf að viðurkenna þau.