Eins og ég sagði nýlega hér á þessu bloggi þá byrjaði mín þrautaganga um heilbrigðiskerfið árið 2006 og með mikilli baráttu tókst mér að fá rétta greiningu áður en það varð of seint. Á þessum árum las ég um Atla Thoroddsen sem lést vegna rangrar sjúkdómsgreiningar, sagan hans fékk mikið á mig og ég hugsaði stundum um það hvort ég fengi rétta sjúkdómsgreiningu of seint eins og hann. Í grein sem hann skrifaði og er að finna á Kraftur.org segir hann : “Það sem okkur vantar hérna á Íslandi er einhverskonar teymi í kringum sjúkling sem er orðinn alvarlega veikur eða ef í hans tilfelli ekki virðist vera hægt að ná tökum á réttri greiningu.”
Eins og ég sýndi í síðasta bloggi þá var ég treg til að fara af SBD 7.september 2010 og núna velti ég því fyrir mér afhverju læknar vildu að ég færi, ég var mikið veik, það duldist ekki nokkrum manni og afhverju átti ég þá að fara heim? Ég hafði ekki fengið allar rannsóknir sem í boði voru, það er alveg ljóst núna!
28.október 2010 fékk ég loksins rétta rannsókn, í ristilspeglun kom í ljós að í ristlinum var stórt æxli, ekki var hægt að staðsetja æxlið þar sem ekki var hægt að koma myndavélinni framhjá æxlinu.
3.nóvember 2010 var tekin sneiðmynd og þá var hægt að kortleggja hversu alvarlegt ástand mitt var! Eins stendur á neðangreindu skjali þá teygði æxlið anga sína út í aðlæga fitu og taumur gekk alveg út að mjógirni og mjög nærri brisinu. Ástandið var semsagt mjög hættulegt en tveimur mánuðum fyrr hafði verið útskýrt fyrir mér á SBD að búið væri að útiloka að eitthvað hættulegt væri á seyði.
Pósta þessum link aftur og set skjámynd af því sem ég vil vekja athygli á en margt í þessari grein er athyglisvert.