Nú er komin vika síðan ég fékk verkjameðferðina sem ég sagði frá að stæði til í síðastu bloggfærslu. Ég fékk einn plástur og honum var skipt í tvennt og bútarnir látnir duga undir báðar iljar en ef vel á að vera þá þarf ég tvo plástra, kostnaðurinn er hindrunin því einn plástur kostar 60 þúsund en ég borga 26 þúsund, fæ semsagt heilmikla niðurgreiðslu en þarf líka að borga heilmikið á minn mælikvarða.
Það var ekkert mál að fá meðferðina sjálfa en daginn eftir þegar ég vaknaði talsvert verkjaminni ætlaði ég að skella mér í gönguferð og fór í skó og lagði galvösk af stað, eftir 15 mínútur snéri ég við með logandi iljar og komst með herkjum til baka og ég veit að göngulagið mitt varð stórfurðulegt í restina.
Nú er semsagt komin vika og það er skemmst frá því að segja að ég gaf yndislegu heimilishjálpinni minni kaffi þegar hún mætti til að þrífa hjá mér í gær því ég var búin að skúra og skrúbba allt út úr dyrum, það hef ég ekki getað gert sjálf í mörg ár. Ég mun svo hafa samband við heimilisþjónustufyrirtækið í næstu viku til að láta vita að ég sé tekin við mínum störfum aftur.
Áframhaldið verður þá þannig að ég þarf að fá þessa meðferð á þriggja til sex mánaða fresti og þá verður eintóm hamingja og gleði í kortunum mínum