Nú eru komnar 6 vikur frá verkjameðferðinni og nú get ég sagt að lífið mitt sé farið að líkjast því lífi sem ég átti fyrir mörgum árum síðan. Að vísu duttu inn aðrir verkir sem höfðu verið í skugga óbærilegu verkjanna en ég þykist ekki taka eftir þeim, reyni að afneita þeim og það gengur bara ágætlega, mér er svo umhugað um að taka þátt í lífinu að það kemst ekkert annað að og ég er á fullu alla daga. Í september fyrir 10 árum datt ég út af vinnumarkaði, núna er ég byrjuð að vinna og annað kvöld byrja ég í skóla, áhugamálin fá líka tíma, handavinnan og ljósmyndunin er endalaus uppspretta gleði og ánægju og svo er ég í fjölbreyttu félagsstarfi, sólarhringurinn er of stuttur fyrir allt sem ég er að gera.
Það fer líka heilmikill tími í uppbygginguna eftir niðurbrotið, ég reyni að ýta frá mér óþægilegum endurminningum en ég finn að það er ekki rétta leiðin að ýta þeim í burtu, ég tek þær í sátt, það er eina leiðin, alveg eins og þegar ég ákvað að taka veiku konuna (mig) í sátt þegar hún fékk allsstaðar höfnun, það er bara fyndið að horfa til baka núna og skoða ferlið og orðin, orðin sem fólk leyfði sér að nota, bara eins og að ég ætti ekki sama rétt á lífi og heilsu og aðrir.
Ég sendi ljós og góða strauma í allar áttir.