Mottu Mars

Grein eftir Ásgeir Theodórs lækni um krabbamein í ristli birtist í Morgunblaðinu 28.12.2012

“Það gerist óþarflega oft, því miður, að fólk deyr ótímabærum dauða af völdum ristilkrabbameins sem auðveldlega hefði mátt forða. Þeir hefðu getað lifað góðu lífi áratugum lengur ef það hefði bara komið í tæka tíð til skoðunar sem hefði í heildina tekið 1-2 klukkustundir. Það er sárgrætilegt að horfa upp á slíkt, vanmegnug að breyta nokkru úr því sem komið er.”

“Eiga Íslendingar, þjóð með þessa „frábæru“ heilbrigðisþjónustu, bara að sætta sig við að 55 okkar deyi úr þessu krabbameini á hverju ári, 100 á 2 árum, 275 á 5 árum og 550 á 10 árum, meðan vitað er að markvissar aðgerðir myndu fækka dauðsföllum verulega, auka lífsgæði og spara heilbrigðiskerfinu stórar fjárhæðir? Ætlum við virkilega að sitja hjá, þegar við höfum alla kunnáttu, tækni og tækjabúnað til að hefja skipulagða skimun?”

Hér er nýleg grein:

Hvað ef ein flugvél myndi farast? á hverju ári!!

„Þetta hefur verið rætt í áratugi. Öll gögn liggja fyrir og ávinningurinn er svo augljós,“ segir hún í samtali við mbl.is. „Fjárhagslegi ávinningurinn er einnig svo mikill. Heilbrigðiskerfinu munar um hvern veikan sjúkling. Því höfum við allt að vinna til að fara af stað með svona leit.“

———————

Ráðgjafafélag Krabbameinsfélagsins boðar til örráðstefnu fimmtudaginn 6.mars, á morgun í 90 mínútur, ég er frekar ósátt við yfirskrift ráðstefnunnar “HVAÐ GET ÉG GERT?” því að í mínu tilviki þá var ég á hlaupum á milli lækna í mörg ár að biðja um áheyrn en ég var endalaust greind með þunglyndi án þess að ég væri rannsökuð almennilega. Þannig að í mínum huga er það ekki bara spurning um hvað sjúklingurinn geti gert, HVAÐ GETUR HEILBRIGÐISKERFIÐ GERT?

Ég er ekki þiggjandi þessarar þjónustu, ég er NOTANDI og greiðandi og ég vil fá að segja mitt um hvað má gera betur! örráðstefna

0O0

Helst eru það verkirnir eftir lyfjameðferðina sem viðhalda huga mínum við þetta efni. Áður en ég fékk fyrstu verkjameðferðina í júlí 2013 spurði hjúkrunarfræðingurinn hversu hátt á verkjaskalanum 1-10 ég skoraði þegar ég er verst, ég svaraði 12, þá var ég búin að kljást við það ástand í rúmlega tvö ár, það vill svo til að ég fann teikningu af verkjaskala sem nær yfir 11.

pain-scale

Nei, auðvitað er ég ekki að biðja um vorkunn, ég er að vona að ég geti opnað augu fólks fyrir því að ristilkrabbamein breytir lífinu mjög mikið ef það nær að vaxa eins lengi og það gerði í mínu tilfelli. Ég er heppin að vera ekki ein af þessum 55 sem látast árlega af ristilkrabbameini en ég hefði ekki lifað þetta af ef ég hefði ekki gripið til minna eigin ráða til að fá rétta greiningu og það situr auðvitað í mér. Þetta spjót mitt stendur á heilsugæsluna, Landspítalann, sérfræðilækna og yfirstjórn heilbrigðiskerfisins en ég þurfti sjálf að brölta á milli eftir því sem mér sjálfri datt í hug hver gæti gert eitthvað fyrir mig og ég var orðin mjög veik en það var enginn sem vildi gera neitt. Ég átti alltaf að fara heim til mín!

Fyrsta rannsóknin sem ég komst í var framkvæmd í febrúar 2007, það eru semsagt komin 7 ár núna síðan þetta ferli byrjaði. Ég veit ekki hvað embættismenn þurfa langan tíma til að rannsaka málið mitt, það er augljóst að heilsa mín er ekki höfð til hliðsjónar við vinnslu málsins. Það voru læknar sem sviptu mig miklum lífsgæðum og þeir eru að ganga í burtu án þess að líta til baka eða tala við mig. Sem betur fer voru aðrir læknar sem héldu í mér líftórunni, ég er oftast þakklát fyrir björgunina nema þegar ég fer uppí 12 á verkjaskalanum og þá spyr ég aftur HVAÐ GETUR HEILBRIGÐISKERFIÐ GERT?