Pillur og Plástrar

side_effectsEins og ég sagði frá í síðasta bloggi þá fékk ég verkjameðferðinni flýtt til 16.júní. Vongóð um betri líðan var ég mætt kl 9:30 uppá spítala. Deildarstjóri tók á móti mér og vísaði mér í rúm og við spjölluðum saman, ég tók fram að ég vildi fá þessa atburðarás skráða í Sögu-kerfið mér til stuðnings og líka til að kerfið myndi draga lærdóm af þessu þjónustuleysi, hún ræddi um að nú væri það ljóst að það þyrfti að laga þessi mál hjá deildinni.

Stuttu síðar kom hjúkrunarfræðingur og hóf skoðun á meðferðarsvæði, ekki voru það eins vinnubrögð og ég hef áður fengið, allt var talsvert öðruvísi en ég beið róleg og hlakkaði til að fá deifinguna. Þá fékk ég að vita að ég þyrfti að bíða eftir að læknir skoðaði mig, ég varð undrandi á því, aldrei hefur læknir litið á mig í þessu ferli en hjúkrunarfræðingurinn tjáði mér þá að lyfjafyrirtækið, sem selur plástrana, setur í leiðbeiningar að ekki skuli gefa meðferðina oftar en á 12 vikna fresti.

Ég sagði að ég hefði hingað til fengið meðferðina þegar ég þyrfti, ég bara hringdi og pantaði og aldrei hefur verið minnst á neinar 12 vikur við mig. Ég bað um að ath hvort ég hefði ekki örugglega fengið meðferð örar en á 12 vikna fresti og jú ég hafði fengið það en nú vildi hún bíða og sjá til hvað læknirinn segði. Kl 12:30 kom læknirinn, ekki til að skoða mig, heldur til að segja mér að búið væri að senda fyrirspurn út til lyfjafyrirtækisins hvort mætti gefa meðferðina þegar einungis 10 vikur væru liðnar frá síðustu meðferð. “Matthildur, við munum hafa samband við þig um leið og við fáum svar við fyrirspurninni.

 

Ég fór semsagt heim aftur með alla mína verki. Mér var ekki boðið uppá neitt annað, ég veit samt að það eru til annarskonar plástrar en ég var svo miður mín að hugurinn var frosinn fastur, mér datt ekki í hug að segja neitt annað en “Takk fyrir” og svo staulaðist ég út á mínum glerbrotsiljum með brunaverki upp í mitti.

Skv öllu þessu þá fæ ég ekki meðferð fyrr en 30.júní – þá eru liðnar 12 vikur frá síðustu meðferð.

Ég get ekki annað en hugsað um öll geðlyfin sem ég var látin taka, ein tegundin var 1 og hálfur hámarksskammtur í mörg ár, ég man ekki til þess að það hafi þurft að senda fyrirspurn erlendis til að fá samþykki fyrir þessum háa skammti og svo voru allskyns lyfjum blandað saman og jafnvel sótt um niðurgreiðslu á nýjum tegundum lyfja til Tryggingastofnunar án minnar vitundar. Það var ekki verið að nískast eitthvað með pillurnar, því er nú ver!

Heilbrigðisyfirvöld hafa eftirlitsskyldur með heilbrigðisþjónustunni í landinu. Hvernig fer sú vinna fram? Er einhversstaðar til skýrsla um hana Matthildi sem fékk að óþörfu öll þessi geðlyf þegar hún var með ógreint krabbamein árum saman? Hefur landlæknir áminnt geðlækninn fyrir að greina hana og meðhöndla með alvarlega og jafnvel ólæknandi sjúkdóma sem hún hefur ekki og aldrei haft ásamt því að ávísa og láta hana taka svo mikið magn af lyfjum að hún var komin með Seratonin ofhleðslu sem getur orðið lífshættulegt ástand? Hefur spítalinn fengið áminningu fyrir að útskrifa hana amk 6 sinnum á þremur árum án þess að greina hjá henni lífsógnandi krabbamein sem hún sannarlega hafði? Hafa læknar LSH fengið áminningu um fordóma gagnvart Matthildi þegar þeir ákváðu að horfa frekar til sögu um þunglyndi en horfa ekki á sögu um krabbamein þegar þeir ákváðu án rannsókna hvað væri að henni?

Það eru jú liðin mörg ár síðan þetta gerðist og hún Matthildur er ennþá að klást við afleiðingar þessara forkastanlegu vinnubragða! Hvað þarf langan tíma fyrir Sjúkratryggingar að rannsaka og finna út að þessi vinnubrögð urðu Matthildi að varanlegu heilsutjóni?